Tímarit um raunvísindi og stærðfræði birtir vísindagreinar á sviði eðlisfræði, efnafræði, stjarnvísinda og stærðfræði. Allar slíkar greinar eru sendar tveimur ritrýnum til yfirlestrar.
Tímaritið birtir einnig stuttar greinar og fréttir um ýmis áhugaverð efni. Þær greinar eru að öllu jöfnu aðeins yfirfarnar af ritstjórn.
Greinar í tímaritið skulu helst vera á íslensku, en það er þó ekki skilyrði fyrir birtingu.
Ritstjórn mælist til þess að við frágang á greinum noti höfundar LATEX umbrotsumhverfi. Ritstjórn hefur í því skyni útbúið stíl sem nálgast má á vefsíðu ritsins. Þar er einnig að finna sýnishorn að uppsetningu greina sem höfundum er heimilt að nota. Myndir þurfa að vera á PostScript (.ps) eða Encapsulated PostScript (.eps) formi, helst í góðri upplausn. Ritstjórn leiðbeinir einnig um öll atriði sem óviss kunna að vera.
Ritstjórn tekur einnig við greinum sem unnar eru í Word eða WordPerfect. Höfundar eru þá minntir á að slík forrit eru ekki sérhæfð til vinnslu á tæknilegum texta þar sem jöfnur og tákn koma mikið við sögu. Til að auðvelda ritstjórn vinnslu slíkra greina og til að tryggja að öll sértákn og jöfnur skili sér rétt í greinum unnum í þessum forritum eru höfundar beðnir að fara eftir neðangreindum leiðbeiningum. Höfundar eru sérstaklega beðnir að gæta þess að skráin sem þeir senda, innihaldi eingöngu þann texta sem birta á, en ekki leifar af fyrri gerð (t.d. breytingar sem fylgja má eftir með 'Revisions' eða 'Track Changes' í Word).