Pétur Orri Heiðarsson og Bjarni Ásgeirsson

Móttekin: 30. september 2009 - Vefútgáfa: 16. nóvember 2009

Ágrip

Kuldaaðlögun ensíma er almennt talin tengd auknum innri hreyfanleika í byggingu þeirra miðað við ensím sem starfa við hærri hitastig. Þetta stafar m.a. af auknum sveigjanleika í meginstofni fjölpeptíðkeðjunnar. Rafeindaspunaómun (e. electron paramagnetic resonance) er aðferð sem hægt er að nota til þess að skoða staðbundinn sveigjanleika í ensímum. Í þessu verkefni voru áhrif stökkbreytinga í hvarfstöð kuldavirks fosfatasa á ensímeiginleika og sveigjanleika mæld með þessari nýstárlegu aðferð. Einnig var stöðugleiki metinn með mælingum á gleypni hringskautaðs ljóss, þar sem skautuðu ljóssi er snúið á víxl ýmist til hægri eða vinstri. Helixar, og í minna mæli beta-fletir, gleypa einungis annan þáttinn af ljóssinu vegna hendni og má þannig fylgjast með þegar innri byggingin raknar upp. Amínóssýsran Trp274 er talin mikilvæg fyrir bindingu hvarfefnis. Henni var breytt í lýsín eða histidín. Báðar stökkbreytingarnar ollu minnkaðri hvötunargetu og auknum stöðugleika í hvarfstöð ensímsins. Þessar breytingar voru í samræmi við þann minnkaða sveigjanleika stofnkeðjunnar nálægt hvarfstöðinni, sem mældur var beint í stökkbrigðunum. Niðurstöðurnar styðja því þá hugmynd að tengsl séu á milli hvötunar, stöðugleika og sveigjanleika.

pdf sækja grein (pdf) [raust.is/2009/1/10/]