Elín Soffía Ólafsdóttir og Elsa Steinunn Halldórsdóttir

Móttekin: 15. nóvember 2004 - Vefútgáfa: 21. nóvember 2006

Ágrip

Lýkópódíum alkalóíðar eru efnasambönd einangruð úr jöfnum, sem eru flokkur fornra gróplantna. Lýkópódíum alkalóíðar, og þá sérstaklega huperzine A, hafa vakið athygli hin síðari ár vegna sterkrar andkólínesterasavirkni sem hugsanlegt er að nýta í læknisfræðilegum tilgangi gegn sjúkdómum s.s. Alzheimer. Á Íslandi vaxa 5 tegundir jafna. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt. Í fyrsta lagi að rannsaka alkalóíðainnihald íslenskra jafnategunda, bera þekktar byggingar saman við það sem fundist hefur í erlendum rannsóknum og greina byggingu nýrra alkalóíða. Í öðru lagi að kanna andkólínesterasavirkni þessara alkalóíða og skoða samband á milli byggingar og virkni. Í greininni verður lýst niðurstöðum rannsókna varðandi tvær íslenskar jafnategundir Huperzia selago (skollafingur) og Lycopodium annotinum (lyngjafni). Við byggingarákvarðanir nýrra og þekktra alkalóíða var aðallega stuðst við 1H- og 13C-NMR kjarnsegulgreiningu auk HRMS massagreiningar fyrir ný efnasambönd. Úr skollafingri var einangraður, auk hinna þekktu huperzine A og serratidine, nýr alkalóíð sem nefndur var selagoline. Lyngjafni inniheldur a.m.k. 12 mismunandi alkalóíða og búið er að einangra og auðkenna alkalóíðana annotine og annotinine. Alkalóíðar úr báðum jafnategundunum sýndu andkólínesterasavirkni í einföldu TLC prófi þ.á.m. annotine.

pdf sækja grein (pdf) [raust.is/2007/1/13/]