Móttekin: 16. ágúst 2004 - Vefútgáfa: 30. desember 2004
Í byrjun 19. aldar var lítil áhersla á stærðfræðimenntun í eina skólanum á Íslandi sem var fyrst á Hólavöllum í Reykjavík en síðar að Bessastöðum. Það breyttist er Björn Gunnlaugsson stærðfræðingur var ráðinn til starfa við Bessastaðaskóla árið 1822. Árið 1871 var lærðum skólum í Danmörku skipt í mála- og sögudeild annars vegar og stærðfræði- og náttúrufræðideild hins vegar. Árið 1877 var Lærða skólanum, sem fluttur var til Reykjavíkur, sett ný reglugerð. Með henni varð skólinn að máladeild í skólakerfi danska ríkisins. Þá var verulega dregið úr stærðfræðikennslu þeirri sem Björn hafði byggt upp á árunum 1822-1862. Skólamálanefnd, sem skipuð hafði verið til að undirbúa reglugerðina, taldi ekki fært að skipta skólanum í tvær deildir. Hún hafði ætlað að halda meginnámsgreinum beggja deilda, latínu og stærðfræði, að mestu óbreyttum, en skapa að öðru leyti rúm fyrir nútímatungumálin ensku og frönsku. Í greininni segir frá bréfaskriftum landshöfðingja og ráðherra Íslands í Kaupmannahöfn sem urðu til að vikið var frá tillögum skólamálanefndarinnar og dregið úr stærðfræðikennslu. Greint er frá eftirhreytum málsins er kennarar létu í ljós álit sitt á reglugerðinni og fengu henni breytt að nokkru. Ennfremur er leitast við að greina þau rök sem fram komu í málinu út frá kenningum um helstu ástæður fyrir stærðfræðimenntun í ljósi sögunnar.
sækja grein (pdf) [raust.is/2004/2/03/]