Móttekin: 6. júlí 2004 - Vefútgáfa: 29. nóvember 2004
Af árlegri frumorkunotkun heimsins eru um 80% jarðefnaeldsneyti. Þar af er olía um 35%, eða rúmlega þriðjungur af allri frumorkunotkuninni. Það er ýmislegt sem bendir til að á allra næstu árum muni olíuframleiðslan fara minnkandi. Á sama tíma fer þörfin fyrir orku ört vaxandi. Mannkynið kann því fljótlega að standa frammi fyrir alvarlegri orkukreppu, sem ekki verður leyst á annan hátt en auka umtalsvert virkjun hvers kyns endurnýjanlegra orkulinda. Margir sérfræðingar, sem fást við rannsóknir á virkjun sólarorku, telja að eftir 20-30 ár verði hagkvæmt að breyta henni í raforku. Raforkan verður að sjálfsögðu notuð hvar sem mögulegt er, en þó mun alltaf verða þörf fyrir að geyma hana, t.d. sem eldsneyti. Þá er álitlegasta eldsneytið vetni. Íslendingar, sem eiga mikið af óvirkjaðri vatnsorku og jarðhita, þurfa ekki að bíða eftir að virkjun sólarorku verði hagkvæm. Þeir geta hafið vetnisvæðinguna nú þegar og hafa reyndar stigið fyrstu skrefin. Auk þess að framleiða vetni, með hefðbundinni rafgreiningu vatns, býður jarðhitinn upp á margvíslega óhefðbundna möguleika til að vinna vetni, sem sumir hverjir kunna að reynast hagkvæmari. Við upphaf landnáms nýttu Íslendingar alfarið endurnýjanlegar orkulindir. Um aldamótin 1900 var mestur hluti orkunotkunar landsmanna innflutt jarðefnaeldsneyti, kol og olía. Ef fer sem horfir er þess að vænta að um miðja þessa öld komi öll orka, sem notuð verður í landinu frá innlendum vistvænum orkulindum líkt og á landnámsöld.
sækja grein (pdf) [raust.is/2004/2/02/]