Snorri Þór Sigurðsson

Móttekin: 3. febrúar 2004 - Vefútgáfa: 16. ágúst 2004

Ágrip

Hamarshausríbósímið er RNA-sameind sem hvatar rof á annarri RNA-sameind. Við höfum uppgötvað tvo staði á ríbósíminu sjálfu þar sem RNA-sameindin rofnar í lausn sem inniheldur tvígildar sinkmálmjónir, við fosfódíestera 5'-megin við A9 og U4. Lógaritmi hvarfhraðans við A9-hvarfstöðina sem fall af sýrustigi sýnir beina línu upp að pH 8,3, sem er í samræmi við hvarfgang þar sem sinkhýdroxíð hvatar rofið með því að taka prótónu frá 2'-hýdroxýlhópnum á G8. Samband hvarfhraða og sýrustigs fyrir U4-hvarfstöðina er mjög ólíkt A9-hvarfstöðinni og bendir til þess að lögun ríbósímsins breytist fyrir ofan pH 8,0. Ólíkt A9-hvarfstöðinni þar sem ýmsar tvígildar málmjónir hvötuðu RNA rofið, þá var sink eina málmjónin sem hvataði hvarfið við U4-hvarfstöðina. Þetta er fyrsta dæmi um RNA rof, hvatað af tvígildum málmjónum, sem á sér einungis stað í návist einnar tegundar málmjóna.

pdf sækja grein (pdf) [raust.is/2004/1/06/]