Carlos D. Magnússon, Arnar Halldórsson og Guðmundur G. Haraldsson

Móttekin: 21. apríl 2004 - Vefútgáfa: 16. ágúst 2004

Ágrip

Stöðubundin eterlípíð af gerð 1-O-alkyl-2,3-díasylglýseróla, skipuð hreinu EPA eða DHA í miðstöðu og hreinni miðlungslangri mettaðri fitusýru í endastöðu, hafa verið smíðuð í fjórum skrefum úr sólketali, þar sem tvinnað var saman hefbundnum lífrænum aðferðum og líftækni með lípasa. Þrjú afbrigði af 1-O-alkylglýseróli voru útbúin með því að innleiða hexadekyl, oktadekyl og cis-9-oktadekenyl hópa inn á sólketal með Williamson etersmíði. Í kjölfarið fylgdi svo sýruhvatað vatnsrof á ísóprópyliden verndarhópi sólketalsins. Í þriðja skrefinu var staðvendni kyrrsetts Candida antarctica lípasa notuð til að innleiða miðlungslanga fitusýru í endastöðu og loks EDCI tengimiðill til að innleiða hreint EPA eða DHA í miðstöðu glýserólsins. Frábær staðvendni (regioselectivity) fékkst í þessum ferlum og voru heimtur allra myndefna og milliefna með miklum ágætum.

pdf sækja grein (pdf) [raust.is/2004/1/05/]