Móttekið: 15. september 2003 - Vefútgáfa: 19. desember 2003
Hér er lýst þremur reiknilíkönum sem ætlað er að líkja eftir göngum fiska. Ferðir fiska og dreifing þeirra í tíma og rúmi stjórnast af ýmsum þáttum svo sem umhverfisskilyrðum (t.d. hitastigi og fæðuþéttleika), jöðrum sem fiskar fara ekki yfir (svo sem skil milli kald- og hlýsjávar), líkamlegu ástandi fiskanna og svæðum sem fiskar leita á til að hrygna. Í öllum líkönunum er skilgreind svokölluð kjörstefna sem ákvarðast af þáttum innan líkansins sem og af ytri þáttum. Eitt þessara líkana er strjált í tíma og líkir eftir ferðum einstakra fiska þar sem hraði hvers fisks ræðst að nokkru af meðalhraða fiska í næsta nágrenni ásamt suði sem beinir fiskunum í átt að hrygningarslóðinni. Annað líkan er í samfelldum tíma fyrir samfelldan þéttleika og hraða. Jöfnur líkansins eru varðveislujöfnur fyrir massa og fyrir skriðþunga og kraftar í skriðþungajöfnunni snúa hraðavigrinum í gefna kjörstefnu. Þriðja líkanið er af svokallaðri Kolmogorov gerð, þ.e. hlutafleiðujafna fyrir þéttifall hendingar sem gefur staðsetningu fisks. Kjörstefnan ákvarðast af stigli gefins falls af hitastigi, fæðumagni og fjarlægð frá hrygningarslóð. Sýndar eru niðurstöður hermana fyrir tvö þessara líkana. Tilgangurinn með þessum reiknilíkönum er m.a. að prófa tilgátur um áhrif umhverfisskilyrða á göngur.
sækja grein (pdf) [raust.is/2003/2/07/]