Móttekið: 14. maí 2002 - Vefútgáfa: 18. október 2003
Hér er kynnt nýtt tölfræðilíkan sem byggir á fjölkostalíkaninu. Samdreifnifylki líkansins er sveigjanlegra en samdreifnifylki fjölkostalíkansins. Fjölkostalíkanið hefur verið notað fram að þessu til að lýsa gögnum af fjölda fiska í lengdarflokkum úr rannsóknaleiðangrum eða úr lönduðum afla. Fjölkostalíkanið nær engan veginn að lýsa samdreifni gagna af þessu tagi meðan nýja líkanið nær að lýsa henni vel.
Kostnaðarsamir rannsóknaleiðangrar eru farnir árlega frá hafrannsóknastofnunum víða um heim til að safna gögnum um fiskistofna. Oftast er framkvæmt eitt tog á hverri stöð, þar sem stöðvarnar eru dreifðar á ákveðinn hátt um svæðið sem á skoða. Á hverri stöð og fyrir hverja fiskitegund, er tekið handahófsúrtak og fiskarnir í úrtakinu eru lengdarmældir. Við þetta fæst tíðnin í hverjum lengdarflokki á hverri stöð. Eitt af markmiðunum er að meta lengdardreifingu ákveðinnar tegundar á ákveðnum svæðum.
Þrjú líkön fyrir gögn um tíðni í lengdarflokkum eru kynnt og borin saman. Notuð eru gögn um rækju við samanburðinn. Líkönin eru fjölkostalíkanið og tvö stigskipt líkön (e. hierarchical models). Í stigskiptum líkönunum er gert ráð fyrir að á hverri stöð fylgi fjöldinn í lengdarflokkunum fjölkostalíkani með einhvern fjölda mældra fiska og með einhvern tíðnivigur. Tíðnivigrarnir eru breytilegir á milli stöðva en koma frá sameiginlegri dreifingu með ákveðið væntigildi og samdreifnifylki. Dreifingar tíðnivigranna í stigskiptu líkönunum eru Dirichlet-dreifingin og margvíð Gauss-dreifing sem er varpað yfir í hyrnu.
Gögnin hafa meiri dreifni en fjölkostalíkanið og fylgnin í gögnunum er sterkari en fylgnin í líkaninu sem byggir á fjölkostalíkaninu og Dirichlet-dreifingunni. Líkanið sem byggir á fjölkostalíkaninu og margvíðu Gauss-dreifingunni virðist ná að lýsa dreifninni og fylgninni í gögnunum viðunandi vel. Stikarnir í líkönunum eru metnir með Bayes-matsaðferðum.
sækja grein (pdf) [raust.is/2003/2/06/]