Bjarni Ásgeirsson

Móttekin: 1. apríl 2003 - Vefútgáfa: 22. september 2003

Ágrip

Kuldaþolnar lífverur hafa náð að dreifa sér um flest búsvæði á jörðinni. Þær finnast í ríkum mæli við ystu landfræðilegu mörk lífs, svo sem á efstu fjallstoppum, í dýpstu hafdjúpum og á heimskautasvæðunum. Ensím þessara lífvera hafa þróast gegnum tíðina til að takast á við þessi öfgafullu lífsskilyrði. Hvötunargeta kuldavirkra ensíma er gjarna 2-5 falt meiri við staðalhitastig í samanburði við ensím blóðheitra lífvera, en hitastöðugleiki þeirra er aftur á móti minni. Samloðunarkraftarnir sem viðhalda þrívíddarbyggingu próteina eru mjög veikir, en jafnframt afar margir í hverri sameind. Þessir kraftar togast á við hitastigsháðar varmahreyfingar atómklasa um að viðhalda réttu svipmóti hvers próteins. Hvötunarvirkni ensíma er háð þessum innri hreyfingum. Ef ensím er kælt nægilega mikið, hættir það að starfa, því hreyfingar þess stöðvast. Í kuldavirkum ensímum er samloðunarkröftum fækkað með sérvali á amínósýrum, sem gerir þeim kleift að ganga gegnum hvikular hreyfingar við mjög lág hitastig. Hér er fjallað nánar um grundvöll kuldaaðlögunar með tilvísun í rannsóknir við Háskóla Íslands og víðar.

pdf sækja grein (pdf) [raust.is/2003/1/05/]